Þegar við erum í jafnvægi getur þol okkar fyrir ólíkum samskiptum verið nokkuð gott. Samskipti þurfa ekki að vera fullkomin til að við getum notið þeirra því við skiljum og þolum mennsku annarra (ófullkomleikann). Í jafnvægi er fjölskylda sterk og getur stutt við veikasta hlekkinn hverju sinni.

Áföll geta haft gríðarleg áhrif á samskipti í fjölskyldu á þann hátt að þol fjölskyldumeðlima fyrir hverjum öðrum getur minnkað verulega. Getan til að styðja við veikasta hlekkinn mögulega hverfur tímabundið. Rökræður geta breyst í rifrildi og langar þagnir notaðar sem varnarháttur. Við getum séð fyrir okkur að sá hluti heilans sem stjórnar samskiptum (social brain) sé lokaður í búri og sjálfsbjargarhamurinn (survival brain) sé allsráðandi. Löngunin í samskipti hreinlega minnkar og samskipti geta farið að snúast um að verjast.

Það getur verið mikilvægt að vita að órökrétt hegðun er oft afleiðing streitu og áfalla og til að ná jafnvægi þarf umhyggju, öryggi og skilning.