Að horfa án þess að sjá
Það er mér minnistæð setning úr bók Viktor Frankl geðlæknis “ Leiðin að tilgangi lífsins” sem fjallar um líf hans í útrýmingarbúðum nasista í síðari heimsstyrjöld. Hann upplifði gíðarlegar hörmungar dag hvern, meðal annars að fólk var neytt inn í dauðann og á einum stað í bókinni segir hann: “Ég horfði án þess að sjá.” Þessi setning hefur einhverra hluta vegna setið í mér í mörg ár, líklega vegna hins einkennilega áhuga á tengslum almennt. Þessi setning sýnir þann dýrmæta eiginleika okkar að aftengjast raunveruleikanum til að lifa af. Getan til að fara úr núinu og inn í eitthvað annað, vera án þess að vera, horfa án þess að sjá, heyra án þess að hlusta. Þessi eiginleiki getur sannarlega bjargað lífi okkar.
Ég heyrði svo aðra setningu ekki alls í fyrir löngu í spjalli við konu á miðjum aldri. Þegar þessi kona var barn var móðir hennar mjög tilfinningalega fjarlæg. Hún sagði um móður sína: “ Mamma mín sá mig aldrei, hún kannski horfði, en augnaráðið sagði mér að hún sá mig ekki.” Þessi kona hefur þjáðst allt sitt líf vegna þessa tengslaleysis.
Sá eiginleiki okkar að aftengjast getur tekið okkur úr sambandi við allt sem skiptir máli. Á einhverju tímabili eða á einhverjum augnablikum í lífi okkar þurftum við mögulega á aftengingunni að halda. En mörg börn þjást vegna þessa tenglsaleysis. Ég veit það þvi ég hef rætt við mörg fullorðin börn sem upplifðu það.
Það er ekkert eins dýrmætt og núið. Þar er i raun og veru lífið sjálft– það eina sem skiptir máli. Hversu oft erum við á tali? Eða eins og einhver myndi segja: Öll ljós kveikt en enginn heima.
Ég held að núvitundaræfingar séu besta leið okkar inn í tengsl. Tengslin eru nefninlega í núinu. Þá getum við horft og séð, heyrt og hlustað. Það er hægt að nota stundir í fjölskyldunni til að vera í núvitund, saman. Til dæmis við matarborðið, að elda saman eða annað. Sjáum börnin okkar því þau þurfa að vera séð, það er dýrmætasta gjöf sem við gefum þeim.