Það getur verið áhugavert að skoða ýmis mynstur sem erfast kynslóða á milli eins og viðbrögð við streitu, seiglu eða geta til aðgreiningar. Murray Bowen, einn af upphafsmönnum þeirrar hugmynda að fjölskyldan sé kerfi, sagði sjálfur að geta hans til að skoða mynstur í sinni eigin upprunafjölskyldu á hlutlausan hátt væri meiri þegar hann væri ekki innan um upprunafjölskylduna. Það er gjarnan svo og flest okkar þekkja á einhvern hátt að sogast inn í tilfinningalíf annarra fjölskyldumeðlima af og til – við hættum að sjá skýrt og förum að bregðast við. Með því viðhöldum við oft á tíðum virkum mynstrum – heilbrigðum og óheilbrigðum.
Boszormenyi-Nagy, einnig brautryðjandi í fjölskyldumeðferð, geðlæknir kom fram með hugmyndir um ósýnilega hollustu. Slík hollusta er hluti af þvi sem er ósagt en lifir sjálfstæðu lífi á sérstæðan og einkennilegan hátt. Sem dæmi gætu áhrif einhvers sem gekk afar illa í skóla lifað í kynslóðum á eftir í þeirri mynd að börn og barnabörn hefðu ákveðna innri hollustu við þennan einstakling og héldu þessu mynstri áfram – óháð getunni. Hollustan gæti að sama skapi verið sú að þurfa að skara framúr.
Breytingar geta ekki orðið nema út frá meðvitund um það sem er. Það getur verið magnað ferðalag að skoða slik mynstur, sér í lagi ef mynstrin hafa ekki verið eflandi fyrir sjálfið. Það er alltaf hægt að breyta og skapa ný mynstur sem eflir næstu kynslóð. En fyrst verðum við að sjá okkar eigin.