Giacomo Rizzolatti uppgötvaði svokallaðar spegilfrumur árið 1996 og setti í kjölfarið fram kenningu um hæfni mannsins til samkenndar (e. empathy).

Samkennd er hæfileiki okkar til að finna hvernig öðrum líður og eru það spegilfrumur sem stýra því ferli (Rizzolatti og Sinigaglia, 2008). Sumir hafa líkt spegilfrumum við WIFI mannsins – það hvernig hann speglar og skynjar tilfinningalegt ástand annarra á sama hátt og hegðun. Þegar tveir einstaklingar eða fleiri eru samstilltir hafa þeir tilhneigingu til að sitja eða standa á svipaðan hátt og jafnvel verður hrynjandi radda áþekkur (Van Der Kolk 2015).

Spegilfrumur eru mjög berskjaldaðar fyrir neikvæðni annarra og getur til að mynda reiði eins kallað fram reiði annars eða mögulega dregið hann niður í depurð. Vel starfandi spegilfrumur eru því lykilatriði fyrir farsæl tengsl, þar sem fólk getur speglað og verið speglað án þess að sogast inn í erfiðar tilfinningar hvers annars (Van Der Kolk 2015).

Neikvæð viðhorf til einhverra hópa eða einstaklinga má oft túlka sem skort á samkennd. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem hafa almennt neikvæð viðhorf til annarra ættu erfiðara með að stjórna hegðun sinni, höfðu almennt sterk varnarviðbrögð og sýndu fleiri merki áfallastreitu.

Öll skynjun frá umhverfi okkar kemur í gegnum dreka (thalamus) í heilanum. Þaðan bregst mandlan (e. amygdala) við hættum (ímynduðum eða raunverulegum) um það bil 50 millisekúndum áður en meðvitaði hugurinn kemur til skjalanna. Varnarviðbrögð fara ósjálfrátt í gang ef vitsmunaleg skilaboð frá framheilanum (prefrontal cortex) koma ekki inn í myndina.

Þegar varnarviðbrögðin eru ríkjandi er hugsun og hegðun sjálfhverf og því minni líkur á hæfni til að hjálpa öðrum og vera til staðar fyrir aðra. Við eigum erfiðara með að sýna samkennd (Paciello, Fida, Cerniglia, Tramontano & Cole, 2013).

Mér dettur hug orðin sem sonur minn notar þegar hann er í tölvunni og hökkt er á kerfinu: ” Það laggar”.