Meðvirkni byggist á ótta

Ég heyrði móður fíkils tala í gær og hún sagði: “Ég veit ekkert hver ég er – en ég er hér”. Þarna er tengslaleysið og vanmátturinn algert. Ég hef verið móðir í þessari stöðu- sem betur fer ekki í langan tima en nógu langan til að tengslin rofnuðu og varnarhátturinn tók við.

Ég hef verið að eltast við orð eins og tengsl og meðvirkni í nokkur ár.

Andstæða tengsla er tengslaleysi sem ég vil tengja við orðið meðvirkni.

Með orðinu tengslaleysi eru þó einhver tengsl og í tengslakenningum heita þau óörugg tengsl og fleiri nöfnum- en þessi tegund tengsla eða tengslaleysis eru ekki byggð á öryggi og trausti heldur á ótta. Við erum að tala um varnarhátt – það að verjast í stað þess að tengjast.

Hvernig getur það litið út?

Verjast að verða sér til skammar, verjast því að verða fyrir sársauka, verjast því að aðrir verði fyrir sársauka, verjast því að að gera mistök, verjast, verjast, verjast. Það fer gríðarleg orka (andleg og líkamleg) í varnarhátt.

Áföll valda tengslaleysi – kerfið okkar er hannað þannig- til að minnka skaðann. Þegar ástvinir þjást vegna fíknar (sem byggist á tengslaleysi) aftengjumst við og förum í varnarstöðu- tengslaleysi. Ef foreldrar okkar hafa ekki nægilegan þroska og eru sjálf ekki í tengslum getum við þróað með okkur tengslaleysi og varnarhátt.

Það má segja að við svæfum hluta í okkur þegar tengslaleysi verður. Við förum að aðlagast umhverfinu og aðstæðunum og aðlögunin tekur okkur frá eigin kjarna.

Tenglsaleysi þarfnast lagfæringar. Við þurfum að rata aftur heim – komast aftur i samband.